Flóaskóli varð í 3. sæti í Skólahreysti 2025 en úrslitakeppnin fór fram í Íþróttahúsinu Varmá í Mosfellsbæ í gærkvöldi. Holtaskóli varð Skólahreystimeistari en tólf skólar kepptu til úrslita.
Holtaskóli hlaut 58 stig og í öðru sæti varð lið Langholtsskóla með 54 stig. Í keppninni áttu þau mistök sér stað að árangur Flóaskóla í hraðaþraut fór ekki réttur inn í stigatöflu og endaði Flóaskóli því þar í fjórða sæti. Það var leiðrétt eftir keppni, Flóaskóli endaði því í 3. sæti með 50 stig og Varmahlíðarskóli í 4.sæti, aðeins einu stigi á eftir Flóaskóla með 49 stig. Keppnin var jöfn og spennandi en frábær árangur í hraðaþrautinni tryggði Flóaskóla bronsið.
Bronslið Flóaskóla skipa Kristófer Máni Andrason, Magnea Bragadóttir, Karólína Þórbergsdóttir og Freyr Sturluson.
Sunnlendingar áttu fleiri fulltrúa á úrslitakvöldinu en lið Grunnskólans í Þorlákshöfn varð í 11. sæti í keppninni.




