Flóahlaupið var valið götuhlaup ársins 2023 í kosningu sem fór fram á vefsíðunni hlaup.is. Niðurstöðurnar eru fengnar með einkunnagjöf frá hlaupurum.
Gefnar eru tvennskonar einkunnir, annars vegar einkunnir fyrir hina ýmsu þætti hlaupsins og einnig ein heildareinkunn. Sameinuð heildareinkunn ræður úrslitum og stóð Flóahlaupið það hæst með einkunnina 4,82 en í 2. sæti varð Fossvogshlaup Hleðslu með 4,76 og í 3. sæti Akureyrarhlaupið með 4,68. Hólmsheiðarhlaup UltraForm og Fram var síðan valið utanvegahlaup ársins.
Flóahlaupið er rótgróið hlaup og í hugum margra hlaupara er vorið fyrst komið þegar það fer fram. Hlaupið verður haldið í 46. skipti þann 13. apríl næstkomandi og að sjálfsögðu verður veglegt kaffihlaðborð í Félagslundi að hlaupi loknu.