Flautukarfa Bjarna tryggði sigurinn

Hamar vann sinn fyrsta sigur í Lengjubikar karla í körfubolta í vetur þegar liðið lagði lærisveina Ágústs Björgvinssonar í Val, 85-83, í Hveragerði í kvöld.

Valsmenn höfðu frumkvæðið í 1. leikhluta, skoruðu fimm fyrstu stigin og náðu mest átta stiga forskoti, 13-21. Hamar skoraði sex síðustu stigin í 1. leikhluta og minnkuðu muninn í 19-21.

Gestirnir skoruðu fyrstu sex stigin í 2. leikhluta og breyttu stöðunni í 19-27 en þá svaraði Brandon Cotton með ellefu stigum í röð fyrir Hamar og kom þeim yfir, 30-27. Hamar lét kné fylgja kviði og jók forskotið í 46-37 fyrir hálfleik.

Hamar hafði tíu stiga forskot þegar 3. leikhluti var nýhafinn en þá kom 12-0 kafli hjá Valsmönnum sem breyttu stöðunni í 53-56. Eftir það skiptust liðin á um að skora og staðan var 65-64 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.

Valur leiddi allan síðasta leikhlutann og hafði sjö stiga forskot þegar tæp ein og hálf mínúta var eftir af leiknum. Hamar skoraði þá sex stig í röð á skömmum tíma og Brandon Cotton jafnaði leikinn úr vítaskoti, 83-83, þegar sextán sekúndur voru eftir. Valsmönnum tókst ekki að skora úr næstu sókn og á endanum stal Hamar sigrinum með flautukörfu frá Bjarna Rúnari Lárussyni.

Brandon Cotton var stigahæstur hjá Hamri með 35 stig, Halldór Gunnar Jónsson skoraði 13 og Louie Kirkman 10.

Ragnar Gylfason var meðal stigahæstur leikmanna Vals með 14 stig og Snorri Þorvaldsson skoraði 3.