„Flatasta hlaupabraut landsins“

Skemmtiskokkarar við rásmarkið í Brúarhlaupinu. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Næstkomandi laugardag verður Brúarhlaupið haldið í 28. sinn á Selfossi.

Brúarhlaupið var fyrst haldið árið 1991, þá í tilefni af 100 ára afmæli Ölfusárbrúar. Frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss er eigandi og framkvæmdaaðili Brúarhlaups Selfoss.

„Tilgangur Brúarhlaupsins er fyrst og fremst sá að standa fyrir skemmtilegum íþróttaviðburði í sveitarfélaginu með hlaupavegalengdum sem henta öllum og hjólreiðum að auki. Einnig er þetta stór liður í fjáröflun fyrir starfsemi frjálsíþróttadeildarinnar,“ segir Helgi Sigurður Haraldsson, formaður frjálsíþróttadeildar Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.

„Allt fram til ársins 2014 fór 10 km hlaupið fram á þjóðvegum í nágrenni Selfoss. En vegna slysahættu af aukinni umferð var árið 2014 ákveðið að færa hlaupið innanbæjar á Selfossi og hlaupa það að langmestu leyti á göngustígakerfum bæjarins,“ segir Helgi.

Viljum hvetja sem flesta til að vera með
Helgi segir að hlaupið sé fyrir alla þá sem hafa gaman af því að hreyfa sig og taka þátt í skemmtilegum viðburði. „Vegalengdirnar eru fyrir alla, frá 800 m Sprotahlaupi upp í 10 km auk 5 km hjólreiða,“ segir Helgi og bætir við því að þátttakendur séu á öllum aldri. „Frá 3 ára upp í 70 ára. Flestir eru á aldrinum 15-30 ára.“

„Hlutfall aðkomufólks hefur alltaf verið að aukast og því miður hefur hlutfall heimamanna verði að minnka og er það miður,“ segir Helgi. „Starfsmenn hlaupsins eru alls um áttatíu. Hlaupaleiðin er flatasta hlaupabraut landsins. Fjölmörg met og bætingar eru sett á hverju ári í þessu hlaupi.“

„Við sem stöndum að hlaupinu viljum hvetja sem flesta til að vera með og taka þátt í skemmtilegum viðburði. Sérstaklega viljum við hvetja íbúa Árborgar til að fjölmenna og vera með. Aðrir, sem ekki vilja taka þátt, hvetjum við til að vera úti við þegar hlauparar hlaupa hjá, víðsvegar um bæinn, og hvetja þá áfram,“ segir Helgi að lokum.

Fyrri greinGrímsævintýri um næstu helgi
Næsta greinSýningarstjóraspjall og leiðsögn með Kristínu