Flamengo-körfubolti í Iðu?

Stjórn Körfuknattleiksfélags FSU rak í dag smiðshöggið á mikilvægasta þáttinn í undirbúningi komandi keppnistímabils með ráðningu Spánverjans José Gonzálas Dantas í þjálfarateymið.

Fullyrða má að Dantas sé meiriháttar hvalreki á fjörur félagsins, en það var Eloy Doce Chambrelan, aðalþjálfari FSU næstu þrjú árin, sem hafði milligöngu um ráðninguna. Dantas er 26 ára gamall, menntaður frá háskólanum í Granada, sem er meðal virtustu háskóla á Spáni. Hann er með meistaragráðu í kennslu á framhaldsskólastigi og einnig með gráðu í íþróttafræðum (Physical Activity og Sport Sience).

Dantas hefur, þrátt fyrir ungan aldur, mikla reynslu af þjálfun á öllum stigum. Hann hefur verið aðalþjálfari hjá ungum krökkum frá minniboltaaldri og öllum aldurshópum upp í meistaraflokka. Meðal annars var hann þjálfari karlaliðs Granada-háskólans 2015-2016 og aðstoðarþjálfari í „First National League“ á Spáni.

Hann mun gegna fjölbreyttum störfum hjá FSU, þjálfa 7.-10. flokk karla og þjálfa með Stefáni Magna Árnasyni stráka í 4.-6. bekk og leiðbeina og aðstoða yngri flokka þjálfarana. Að auki verður hann aðstoðarþjálfari með Chambrelan í Körfuboltaakademíu FSu og meistaraflokki karla og sjá um alla styrktarþjálfun hjá félaginu.

Frá þessu er greint á heimasíðu FSu-Körfu og þar kemur fram að ennþá sé hægt að skrá sig í akademíuna.