Fjórir Sunnlendingar í landsliðinu

Fjórir einstaklingar úr keppnisliði HSK/Selfoss voru valdir í A-landslið Íslands í frjálsum íþróttum sem keppir um næstu helgi í Evrópubikarkeppni landsliða í Reykjavík.

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, mun keppa í 400 m hlaupi, 100 m grindahlaupi og 4×400 m boðhlaupi, Agnes Erlingsdóttir, Umf. Laugdæla, keppir í 1500 m hlaupi, Hreinn Heiðar Jóhannsson, Umf. Laugdæla, keppir í hástökki og að lokum hleypur Haraldur Einarsson, Umf. Vöku, með sveit Íslands í 4×400 m boðhlaupi.

Ísland keppir í 3. deild Evrópubikarsins ásamt fjórtán öðrum þjóðum en mótið fer fram á Laugardalsvelli 18. og 19. júní.

Fjögurhundruð keppendur koma til landsins vegna mótsins auk 100 þjálfara og annars starfsfólks.