Fjórir Selfyssingar í leikmannahópi Íslands

Janus Daði, Elvar Örn, Haukur og Bjarki Már munu halda merki Selfoss á lofti á EM í handbolta. Myndir/Facebooksíða HSÍ

Bjarki Már Elísson, Elvar Örn Jónsson, Haukur Þrastarson og Janus Daði Smárason eru allir í leikmannahópi Íslands sem hefur keppni á Evrópumótinu í handbolta í Svíþjóð á laugardaginn.

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, tilkynnti endanlegan hóp í dag og voru sautján leikmenn valdir í hópinn.

Elvar Örn meiddist á ökkla í æfingaleik gegn Þýskalandi um síðustu helgi og sagði Guðmundur á blaðamannafundinum í dag að flest benti til þess að Elvar yrði til í slaginn á laugardaginn.

Ísland mætir Danmörku í fyrsta leik riðlakeppninnar á laugardaginn, Rússlandi á mánudaginn og Ungverjalandi miðvikudaginn 15. janúar.

Fyrri greinFSu úr leik í Gettu betur
Næsta greinHeiðin og Þrengslin opin