Fjórir Selfyssingar í landsliðshópnum

Teitur Örn Einarsson er kominn aftur í landsliðið eftir að hafa verið úti í kuldanum í síðustu verkefnum. Ljósmynd/Johannes Eiriksson

Guðmundur Guðmundsson, landsliðþjálfari í handbolta hefur valið þá 18 leikmenn sem mæta munu Ísrael og Litháum í undakeppni EM 2022 í næstu viku.

Fjórir Selfyssingar eru í hópnum; þeir Bjarki Már Elísson, Lemgo, Elvar Örn Jónsson, Skjern, Ómar Ingi Magnússon, Magdeburg og Teitur Einarsson, Kristianstad. Af fjórmenningunum er Bjarki Már leikjahæstur en hann mun væntanlega leika sinn 80. landsleik þegar Ísland mætir Ísrael á útivelli næstkomandi þriðjudag.

Janus Daði Smárason er ekki í hópnum að þessu sinni en hann fór meiddur heim af HM í Egyptalandi í janúar og í framhaldinu í aðgerð á öxl.

Strákarnir okkar leika við Ísrael í Tel Aviv þriðjudaginn 27. apríl,  gegn Litháum í Vilnus fimmtudaginn 29. apríl og aftur gegn Ísrael á Ásvöllum sunnudaginn 2. maí næstkomandi.

Fyrri greinÞjónustusamningur milli Árborgar og BFÁ framlengdur
Næsta greinSmit á leikskólanum Álfheimum