Fjórir Selfyssingar á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar

Eva Lind, Bryndís Embla, Ragnar og Hjálmar Vilhelm eru til í slaginn á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar. Ljósmynd/Rúnar Hjálmarsson

Fjórir keppendur frá Ungmennafélagi Selfoss eru í landsliðum Íslands á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar sem sett verður í Skopje í Norður-Makedóníu í dag.

Þetta eru frjálsíþróttafólkið Bryndís Embla Einarsdóttir, sem keppir í spjótkasti, Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, sem keppir í tugþraut og handknattleiksfólkið Ragnar Hilmarsson og Eva Lind Tyrfingsdóttir, sem eru í U17 ára landsliðum Íslands.

Þjálfari og flokkstjóri frjálsíþróttaliðsins er Rúnar Hjálmarsson og Pétur Guðmundsson frá Tungu er sömuleiðis með í för sem þjálfari.

Hátíðin stendur til 26. júlí en hún er fyrir evrópsk ungmenni á aldrinum 14-18 ára. Ísland mun eiga 49 keppendur í sjö keppnisgreinum; borðtennis, badminton, götuhjólreiðum, frjálsíþróttum, handbolta, júdó og áhaldafimleikum.

Fyrri greinEldsprækir Ægismenn röðuðu inn mörkum
Næsta greinEldur kraumar í kurlfjalli á Selfossi