Fjórir Selfyssingar á Evrópumót

Selfyssingarnir Ragnar Jóhannsson og Árni Steinn Steinþórsson eru á leið á Evrópumeistarmótið í handknattleik landsliða skipað leikmönnum 20 ára og yngri í Slóvakíu.

Þjálfari landsliðsins er Selfyssingurinn Einar Guðmundsson, en þetta sama lið hafnaði í 2. sæti á heimsmeistaramótinu sem haldið var í Túnis í fyrra og í fjórða sæti á Evrópumeistaramótinu sem haldið var í Tékklandi fyrir tveimur árum.

Mótið í ár er haldið í Bratislava í Slóvakíu og hefst á miðvikudag. Liðið hefur undirbúið sig af kappi allan júlí mánuð og ættu strákarnir að vera vel undirbúnir undir átökin.

Fjórði Selfyssingurinn í hópnum er Guðmundur Árni Ólafsson, núverandi leikmaður Hauka, sem einnig leikur með U20 ára landsliðinu.