Fjórir leikmenn á förum frá Selfossi

Knattspyrnudeild Selfoss hefur rift samningi sínum við markvörðinn Guðjón Orra Sigurjónsson og samningar þriggja annarra leikmanna verða ekki framlengdir.

Í fréttatilkynningu frá stjórn knattspyrnudeildar Selfoss kemur fram að Guðjón sé leystur undan samningi í góðu samkomulagi beggja aðila. Hann gekk í raðir Selfoss í nóvember í fyrra og lék 31 leik með félaginu.

Þá segir fotbolti.net frá því að samningar James Mack og Leighton McIntosh verði ekki framlengdir og í gær var greint frá því að Andy Pew sé sömuleiðis á förum frá Selfossi.

Andy hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin ár og hefur leikið yfir 170 leiki fyrir félagið með hléum frá árinu 2006. „Þetta er sorgardagur fyrir mig,“ skrifaði Andy á Instagram síðu sína. „Ég var að vonast til að leggja skóna á hilluna hérna en það verður ekki að því. Ég vil þakka öllum sem hafa verið hjá félaginu í gegnum árin, ég er mjög þakklátur.“

James Mack hefur spilað undanfarin tvö tímabil með Selfyssingum og var markahæsti leikmaður liðsins bæði tímabilin. Framherjinn McIntosh gekk í raðir Selfoss í félagaskiptaglugganum í sumar og skoraði eitt mark í sjö leikjum.

Fyrri grein„Magnaðasta flotlaug landsins“
Næsta greinÞórsarar undir í jöfnum leik