Fjórða tap Selfoss í röð

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði 3-0 þegar liðið heimsótti Þór/KA á Þórsvöllinn á Akureyri í dag í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Sigur heimakvenna var öruggur og Selfoss situr áfram á botni deildarinnar.

Upphafsmínúturnar voru skelfilegar fyrir Selfoss, Þór/KA sótti stíft og skoraði tvisvar á fyrstu þrettán mínútunum en í bæði skiptin voru leikmenn Selfoss óheppnir að skalla boltann fyrir fætur markaskoraranna. Heimakonur sóttu nánast látlaust í fyrri hálfleik og hefðu auðveldlega getað bætt við mörkum.

Staðan var 0-2 í leikhléi og Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af krafti. Þær fengu hins vegar mark í andlitið á 55. mínútu og þá má segja að öll vopn hafi verið slegin úr höndum Selfyssinga. Saga sumarsins hélt áfram, liðinu gekk ekkert í sóknarleiknum og skoraði ekki mark fjórða leikinn í röð.

Selfoss er í neðsta sæti deildarinnar með 4 stig en Þór/KA lyfti sér upp í 4. sætið með 12 stig.

Fyrri greinTveir í röð hjá Stokkseyri
Næsta greinBetri heilsa – aukin lífsgæði: Öldrunarendurhæfing á Heilsustofnun NLFÍ