Fjórar efnilegar í leikmannahóp Selfoss

Kvennalið Selfoss í handbolta hefur bætt við fjórum stúlkum í leikmannahóp sinn. Ekki var leitað langt yfir skammt enda þessar stúlkur allar leikmenn 3. flokks hjá Selfoss.

Þetta eru þær Ída Bjarklind Magnúsdóttir, Þuríður Ósk Ingimarsdóttir og Dagbjört Rut Friðfinnsdóttir, sem allar eru 17 ára, og hin 16 ára gamla Elva Rún Óskarsdóttir.

Þessar ágætu stúlkur hafa allar verið í æfingahóp meistaraflokks í sumar og í framhaldi af því óskuðu þjálfarar eftir því að þær myndu verða hluti af liðinu í vetur.

Í frétt frá handknattleiksdeildinni segir að þær eigi án vafa eftir að standa sig vel og gera sér líka allar grein fyrir því að árangur næst ekki nema með vinnu og aftur vinnu og þolinmæði. Stjórn handknattleiksdeildar Selfoss fagnar þessari viðbót við hópinn.

Fyrsti leikur meistaraflokks er heimaleikur gegn Fram laugardaginn 10. september kl 14:00.

Fyrri greinSelfyssingum tókst ekki að skora – KA upp
Næsta greinNáms- og kennsluver opnað á Hellu