Selfoss heimsótti Keflavík í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn var bráðfjörugur og lauk með 3-2 sigri heimamanna.
Það var rúmlega ein mínúta komin á klukkuna þegar Keflvíkingar skoruðu með góðu skoti fyrir utan teig en sex mínútum síðar hafði Reynir Freyr Sveinsson jafnað fyrir Selfoss eftir klafs í vítateig Keflavíkur.
Á fimmtándu mínútu komust Keflvíkingar aftur yfir eftir góða sókn en aftur svöruðu Selfyssingar strax með marki. Fjórum mínútum síðar hafði Aron Lucas Vokes skorað snyrtilegt mark eftir fyrirgjöf frá Frosta Brynjólfssyni.
Leikurinn var í járnum eftir þetta og bæði lið fengu fín færi og Aron Fannar Birgisson átti meðal annars skalla í þverslána. Staðan var 2-2 í hálfleik.
Keflvíkingar voru meira með boltann í seinni hálfleiknum en Selfyssingar voru skipulagðir og það var fátt um færi. Sigurmark Keflvíkinga kom eftir fast leikatriði, hornspyrnu á 80. mínútu og Selfyssingar gátu ekki svarað fyrir sig í kjölfarið.
Selfoss er áfram í 11. sæti deildarinnar með 7 stig en Keflavík lyfti sér upp í 6. sætið með 15 stig.