Fjórði sigur Þórs í vetur

Þórsarar unnu sannfærandi sigur á Fjölni í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld. Eftir jafnan fyrri hálfleik tóku Þórsarar málin í sínar hendur í 3. leikhluta og sigruðu 82-68.

Þórsarar náðu forystunni undir lok 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 25-19. Munurinn varð mestur tíu stig í upphafi 2. leikhluta, 31-21 en eftir það var leikurinn jafn og Fjölnir minnkaði muninn í sex stig fyrir leikhlé, 40-34.

Þór gerði út um leikinn í upphafi 3. leikhluta með 18-3 leikkafla og breyttu þar með stöðunni í 58-37 en staðan var 65-46 þegar 3. leikhluta lauk. Fjölnismenn klóruðu í bakkann í upphafi síðasta fjórðungsins en Þórsarar voru með leikinn í hendi sér og kláruðu af öryggi.

Guðmundur Jónsson og Darrin Govens skoruðu báðir 16 stig, Michael Ringgold og Darri Hilmarsson 14 en Ringgold tók 13 fráköst að auki.

Þetta var fjórði sigur Þórs í vetur en Þorlákshafnarliðið er með 8 stig í 5. sæti en KR, Njarðvík og ÍR hafa sama stigafjölda. Stjarnan og Keflavík eru í 2.-3. sæti með 10 stig en Grindvíkingar eru ósnertanlegir á toppnum með fullt hús og 14 stig.