Fjölskylduganga á Reykjafjall á laugardag

Héraðssambandið Skarphéðinn tekur þátt í verkefninu Fjölskyldan á fjallið, eins og jafnan áður. Fjöllin sem HSK tinefnir í verkefnið í ár eru Reykjafjall við Hveragerði og Hellisfjall á Landmannaafrétti.

Svokölluð póstkassaganga á Reykjafjall verður á laugardag og er gangan hluti af dagskránni á Landsmóti 50+ í Hveragerði um næstu helgi.

Lagt verður af stað frá Sundlauginni Laugaskarði kl. 16 laugardaginn 24. júní. Gengið með hlíðum Reykjafjalls og uppá fjallið á móts við Ölfusborgir. Allir eru velkomnir.

Reykjafjall er mjög gróið fjall og skógi vaxið. Best er að ganga á fjallið fyrir ofan Ölfusborgir. Lagt er af stað frá Sundlauginni Laugaskarði og gengið eftir göngustíg með fram fjallinu. Á leiðinni er gengið fram hjá gömlu fjósi og við fjallsræturnar má sjá gamlar tóftir á hægri hönd. Síðan er gengið fram hjá Stórkonugili og áfram austur með fjallinu. Á slóðanum má finna styrktartæki sem tilheyra Heilsuhringnum. Gengið er uppá fjallið rétt áður en komið er að Ölfusborgum og er fallegt útsýni yfir Ölfusið og ströndina.

Reykjafjall nær um 420 m hæð yfir sjávarmáli og er brún þess í um 140 – 160 m hæð ofan við byggðina í Hveragerði. Gaman er að ganga yfir fjallið til vesturs og koma niður ofan við Landbúnaðarháskólann á Reykjum.

Á Reykjum var fyrrum aðsetur höfðingja en Gissur Jarl Þorvaldsson bjó þar á 13. öld og Oddur Gottskálksson vann að þýðingu Nýja testamentisins á 16. öld. Reykjafjall er í námunda við Henglasvæðið sem er eitt af stærstu jarðhitasvæðum landsins, í vestri og við Ingólfsfjall í vestri.

Fyrri greinNýr áfangastaður afhjúpaður við Þykkvabæ
Næsta greinEldur í traktor undir Ingólfsfjalli