Fjölnir tekur forystuna

Selfoss og Fjölnir mættust í fyrsta leik umspilsins í 1. deild karla í handbolta í Grafarvogi í kvöld. Fjölnismenn sigruðu 28-25.

Selfyssingar byrjuðu betur í leiknum en Fjölnir náði þriggja marka forskoti þegar leið á fyrri hálfleik og staðan var 16-13 í hálfleik.

Fjölnir náði svo sex marka forskoti þegar seinni hálfleikur var rúmlega hálfnaður, 26-20. Selfoss minnkaði muninn í þrjú mörk, 27-24 þegar þrjár mínútur voru eftir.

Í kjölfarið fengu þeir vínrauðu tækifæri til að minnka muninn niður í tvö mörk en markvörður Fjölnis, sem átti stórleik í kvöld, sá við þeim í tvígang og Fjölnir jók muninn aftur í fjögur mörk, 28-24. Selfyssingar skoruðu svo síðasta mark leiksins.

Her­geir Gríms­son var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Sverr­ir Páls­son skoraði 6, Teit­ur Örn Ein­ars­son 4, Guðjón Ágústs­son 3, Árni Guðmunds­son og Andri Már Sveins­son 2 og Al­ex­and­er Már Egan 1.

Tvo sigra þarf til þess að komast áfram í keppninni. Liðin mætast næst í Vallaskóla á mánudagskvöld kl. 19:30. Sigri Selfyssingar í þeim leik verður oddaleikur í Grafarvogi miðvikudaginn 15. apríl. Nái Fjölnir hins vegar í sigur á Selfossi eru Selfyssingar komnir í sumarfrí.

Fyrri greinSamið við JÁVERK fyrir stórframkvæmd í Bláa lóninu
Næsta greinHellisheiði opin