Fjölnir skellti Selfoss í bragðdaufum leik

Selfoss fékk Fjölni í heimsókn í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Gestirnir unnu sanngjarnan sigur í leik þar sem heimamenn létu lítið að sér kveða.

Selfyssingar léku ákaflega varfærnislega í fyrri hálfleik en þrátt fyrir að leggja áherslu á vörnina fengu þeir vínrauðu á sig tvö mörk. Fjölnismenn komust á 14. mínútu og bættu öðru marki við á 30. mínútu. Selfoss átti ekki markskot í fyrri hálfleik og leikur liðsins gerði lítið til að gleðja stuðningsmennina.

Hvort sem það var lagavali vallarplötusnúðsins í leikhléinu að þakka eða ekki þá komu Selfyssingar tvíefldir til leiks í seinni hálfleik. Strax í upphafi átti Joseph Yoffe stangarskot og á 49. mínútu skoraði Sindri Snær Magnússon laglegt mark þegar hann slapp vinstra megin inn í vítateig Fjölnis.

Tveimur mínútum síðar átti Sindri Snær lúmskt skot að marki, vel fyrir utan vítateig, en Þórður Ingason, markvörður Fjölnis, varði meistaralega. Þessar rúmu fimm mínútur voru frískasti kafli Selfyssinga í sókninni en eftirleikurinn var þeim mjög erfiður. Boltinn gekk illa á milli manna og vörn Fjölnis átti ekki í neinum vandræðum með hugmyndasnauðan sóknarleik Selfoss.

Þegar leið að lokum þyngdust sóknir Selfyssinga nokkuð en þrátt fyrir hamagang í vítateig Fjölnis náðu heimamenn ekki að koma boltanum í netið og misstu því Fjölni uppfyrir sig á stigatöflunni.

Selfoss er í 6. sæti 1. deildarinnar með 14 stig og mætir næst KF á útivelli á þriðjudaginn.

Fyrri greinLeitað að sakamanni í Árnessýslu
Næsta greinFischersetrið opnað formlega