Fjölnir sendi Selfoss í sumarfrí

Lærisveinar Arnars Gunnarssonar í Fjölni sendu Selfyssinga í sumarfrí í kvöld með því að sigra 24-23 í umspili 1. deildar karla í handbolta. Lokakaflinn var æsispennandi.

Selfoss byrjaði betur í leiknum og náðu þriggja marka forystu, 4-7, en þegar um tuttugu mínútur voru liðnar náði Fjölnir að jafna, 9-9. Staðan var 13-12 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var mjög sveiflukenndur og spennandi. Fjölnir leiddi 17-15 þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en þá skoraði Selfoss fjögur mörk í röð. Fjölnir svaraði þá með fjórum mörkum í röð og komst aftur yfir, 21-19. Selfoss jafnaði 21-21 en Fjölnir komst í 23-21 þegar þrjár mínútur voru eftir. Selfyssingar voru hins vegar sterkir á lokakaflanum og jöfnuðu, 23-23, þegar tæp mínúta var eftir.

Fjölnir fór í sókn og þegar 11 sekúndur voru eftir skoruðu þeir 24-23. Selfoss tók strax leikhlé en síðasta sóknin rann út í sandinn með skoti framhjá markinu úr þröngri stöðu.

Árni Geir Hilmarsson var markahæstur Selfyssingar með 7 mörk, Árni Guðmundsson og Sverrir Pálsson skoruðu 3, Hörður Másson, Elvar Örn Jónsson, Matthías Örn Halldórsson og Teitur Örn Einarsson skoruðu allir 2 mörk og þeir Hergeir Grímsson og Alexander Egan skoruðu sitt markið hvor.

Fyrri grein„Maður þarf víst stundum að bíta í það súra“
Næsta greinVorlestin er á leiðinni til þín