Fjölmenni í frjálsíþróttaskólanum

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ var haldinn á Selfossi dagana 28. júní-2. júlí. Alls voru 59 frískir krakkar á aldrinum 11-14 ára sem kláruðu skólann, sem var sá fjölmennasti frá upphafi.

Frjálsíþróttaskólinn er haldinn um allt land en í ár er hann haldinn á fimm mismunandi stöðum.

Skólinn á Selfossi heppnaðist mjög vel, krakkarnir voru mjög ánægðir með skólann og eru strax farin að hlakka til að koma aftur á næsta ári. Þetta var í sjöunda skiptið sem skólinn er haldinn á HSK-svæðinu. Krakkarnir komu nær öll frá Suðurlandinu, og voru flest til að mynda í sigurliði HSK-Selfoss á Íslandsmeistaramótinu sem fór fram helgina fyrir skólann, en einnig voru nokkur börn frá öðrum félögum þó þau hafi verið færri en undanfarin ár.

Markmið skólans er að kynna og breiða út frjálsíþróttir á Íslandi. Dagskrá skólans var mjög fjölbreytt þar sem til að mynda voru kvöldvökur á hverju kvöldi ásamt fjölbreyttri hreyfingu, allt frá hefbundnum frjálsíþróttaæfingum, til sundsprells og ratleiks.

Alls voru þrettán þjálfarar og aðstoðarmenn sem hjálpuðu til í skólanum enda að mörgu að huga að svo sem matartímum, frítímum, æfingum og öðrum dagskrárliðum. Skólinn fór fram við frábærar aðstæður þar sem stutt er í alla aðstöðu sem nota þarf á Selfossi, til að mynda gistiaðstöðuna, frjálsíþróttavöll og sundlaugina.

Skólanum lauk með velheppnuðu frjálsíþróttamóti á fimmtudeginum. Eftir grillveislu fengu krakkarnir viðurkenningaskjöl fyrir þátttöku í skólanum.

Skólinn vill þakka öllum þeim fjölda fyrirtækja sem lögðu þeim lið, sá stuðningur er ómetanlegur, en þau voru: MS, Nettó, Sölufélag garðyrkjumanna, Myllan, Hafnarnes Ver, Almarsbakarí, Guðnabakarí, Krás, Bónus, Kökugerð HP, Selfossbíó, Tiger, Kjörís, Nathan&Olsen, Dominos, Rúmfatalagerinn og SS.

Fyrri greinGóð veiði þrátt fyrir kulda
Næsta greinNevermind í Skálholti