Fjölmenni á fyrsta móti

Mynd úr safni. Ljósmynd/sunnlenska.is

Sjötíu manns komu saman í Fischersetrinu á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi á dögunum og hlýddu á Helga Ólafsson, stórmeistara og skólastjóra Skákskóla Íslands, flytja mjög skemmtilegt og fróðlegt erindi um skákárangur og líf Bobby Fischer.

Að loknum fyrirlestri var fyrsta skákmótið haldið í Fischersetrinu. Tefldar voru 5 mínútna skákir. Keppendur voru sextán og þar sem hér var um að ræða fyrsta skákmótið í Fischersetrinu var ákveðið að allir tefldu við alla eða alls 15 umferðir.

Mótið var opið almenningi og voru keppendur á öllum aldri, en tæpur helmingur keppenda voru nemendur Helga Ólafssonar úr Skákskóla Íslands.

Úrslit mótsins urðu þau að Helgi Ólafsson vann mótið og fékk fullt hús stiga eða 15 vinninga, jafnir í 2.-3. sæti urðu síðan Gunnar Freyr Rúnarsson og Vignir Vatnar Stefánsson með 12.5 vinning hvor.

Fyrri greinBorghildur þriðja í 10 km hlaupinu
Næsta greinÞórir aftur þjálfari ársins