Fjölmenni á Þórðarmótinu

Árlegt Þórðarmót sunddeildar Umf. Selfoss var haldið sl. sunnudag í Sundhöll Selfoss og hafa keppendur þar ekki verið fleiri í langan tíma.

Þórðarmótið er haldið til minningar um Þórð Gunnarsson þjálfara og sundkennara sem starfaði lengi á Selfossi.

Að þessu sinni voru 99 keppendur skráðir á mótið en þeir komu fá Selfossi, Hveragerði, Hvolsvelli og Grindavík. Mótið er langfjölmennasta sundmót sem haldið hefur verið í Sundhöllinni í áraraðir.

Yngstu keppendurnir voru 5 ára Grindvíkingar en 49 börn kepptu í flokki 10 ára og yngri og fengu allir afhent þáttökuverðlaun. Mjög margir keppenda voru að taka þátt í sínu fyrsta móti. Á mótinu var m.a. keppt í mjög óhefðbundnum greinum t.d. fótatökum og rennsli.

Eygló Gunnarsdóttir, systir Þórðar heitins, afhenti stigahæsta sundmanni mótsins Ólöfu Eir Hoffritz Þórðarbikarinn en hann er veittur fyrir stigahæsta sundið sem var 50 m skriðsund og gaf það Ólöfu 520 FINA stig.

Sunddeildin vill koma á framfæri þökkum til allra keppenda , foreldra, þjálfara og starfsmanna mótsins og ekki síst starfsmönnum Sundhallar Selfoss sem lögðu sig fram um að gera mótið mögulegt.

Fyrri greinÞurfa að setja upp 80 kjörklefa
Næsta greinÓska eftir viljayfirlýsingu