Fjöldi Sunnlendinga í nýskipaðri Íþróttanefnd ríkisins

Örn Guðnason á Selfossi er einn af fulltrúunum í Íþróttanefnd ríkisins.

Nokkrir Sunnlendingar eru í nýskipaðri Íþróttanefnd ríkisins en hlutverk nefndarinnar er að veita mennta- og menningarmálaráðuneytinu ráðgjöf í íþróttamálum, gera tillögu til ráðuneytisins um fjárframlög til íþróttamála og um úthlutun fjár úr íþróttasjóði.

Á borði nefndarinnar eru jafnframt málefni þjóðarleikvangs og félagasamtaka.

Soffía Ámundadóttir er nýr formaður nefndarinnar en hún tók við formennskunni af Stefáni Konráðssyni.

Auk Soffíu eru í nefndinni þau Sigríður Jónsdóttir frá ÍSÍ og Sunnlendingarnir Örn Guðnason á Selfossi, sem tilnefndur er fyrir hönd UMFÍ, Jóhanna M. Hjartardóttir í Þorlákshöfn, sem tilnefnd er fyrir hönd sveitarfélaga og Erlingur S. Jóhannsson á Laugarvatni sem situr í nefndinni fyrir hönd Háskóla Íslands.

Fjórir Sunnlendingar eru varamenn í nefndinni en það eru þau Þráinn Hafsteinsson, Ragnheiður Högnadóttir, Bragi Bjarnason og Þórdís Gísladóttir og auk þeirra er Hörður Gunnarsson varamaður.

„Þetta leggst mjög vel í mig og allir í nefndinni eru afar jákvæðir. Nú er ég að kynna mér málin, skoða frumvarp um íþróttastefnu og umsagnir um hana ásamt mörgu fleiru,“ segir Soffía Ámundadóttir, formaður, en hún er fyrsta konan til að setjast í formannsstólinn og yngsti meðlimur nefndarinnar.

Fyrri greinGuðjón Bjarni fékk góða kosningu
Næsta greinLélegt skyggni á Hellisheiði