Fjöldi Selfyssinga í landsliðverkefnum

Fjöldi Selfyssinga verður á ferðinni næstu daga með yngri landsliðum Íslands í handbolta. Fjórar stúlkur fara m.a. með U-19 landsliðinu í undankeppni EM.

Guðjón Baldur Ómarsson, leikmaður Selfoss, hefur verið valinn í æfingahóp U-15 ára landsliðs karla sem kemur saman til æfinga í páskavikunni.

Þá hafa Selfyssingarnir Adam Sveinbjarnarson og Teitur Örn Einarsson verið valdir í æfingahóp U-17 ára landsliðs karla sem æfir einnig um páskana. Adam, er vinstri hornamaður, og Teitur hægri skytta.

Þriðji Selfyssingurinn í hópnum er Örn Östenberg, vinstri skytta frá Vaxsjö í Svíþjóð. Hann er sonur Vésteins Hafsteinssonar og Önnu Hafsteinsson Östenberg.

Í æfingahópi U-19 ára landsliðs karla eru þrír leikmenn frá Selfossi; Elvar Örn Jónsson, miðjumaðurinn Hergeir Grímsson og hægri hornamaðurinn Guðjón Ágústsson. Selfyssingurinn Einar Guðmundsson er annar þjálfara liðsins.

Í U-19 ára landsliði kvenna eru síðan fjórir leikmenn frá Selfossi, þær Elena Birgisdóttir, Harpa Brynjarsdóttir, Katrín Ósk Magnúsdóttir og Þuríður Guðjónsdóttir. Annar þjálfara liðsins er Selfyssingurinn Inga Fríða Tryggvadóttir.

U-19 lið kvenna tekur þátt í undankeppni EM sem fram fer í Makedóníu dagana 17.-19. apríl næstkomandi.

Fyrri greinÚrslitakeppnin hefst í kvöld
Næsta greinLandsvirkjun styrkir viðamikla rannsókn á urriða og bleikju við Efra-Sog