Fjöldi keppenda frá Bandaríkjunum tekur þátt

Von er á stórum hlaupahópi frá Bandaríkjunum í Bláskógaskokk HSK sem fram fer næstkomandi sunnudag.

Þessi 160 manna hópur hefur hlaupið saman víða um heiminn en Ísland hefur verið drauma áfangastaður þeirra í nokkur ár.

Jenny, forsprakki hópsins, er himinlifandi að nú sé sá draumur að loksins að rætast.

„Ég er búin að eiga í frábæru samstarfi við Exploring Iceland sem hafa skipulagt dvölina frá A-Ö. Við munum taka þátt í þremur mismunandi hlaupum á Íslandi sem öll hafa sína sérstöðu og með mismunandi vegalengdum. Einnig förum við í hefðbundnar skoðunarferðir, skoðum fossa og fjöll og böðum okkur í ykkar frábæru nátttúruböðum. Við hlökkum mikið til og sérstaklega að hitta aðra íslenska hlaupara í Bláskógaskokkinu“, segir Jenny.

Þess má geta að nefndarmenn í almenningsíþróttanefnd HSK og framkvæmdastjóri HSK funduðu í vetur með fulltrúum ferðaþjónustufyrirtækisins Exploring Iceland vegna komu umrædds hlaupahóps. Sem fyrr segir var ákveðið að hlaupahópurinn taki þátt í Blákskógaskokkinu sunnudaginn 16. júní.

Ákveðið hefur verið að bæta við 5 mílna hlaupi. Þá mun þjónusta við hlaupara verða aukin, en boðið verður upp á rútuferð fyrir keppendur, drykkjarstöðvum verður fjölgað og tekin verður svokallaður flögutími af öllum keppendum.

Vonast er til að íslenskir hlauparar fjölmenni í Bláskógaskokkið, en bandarísku hlaupararnir vilja gjarnan hlaupa með innfæddum eða „running with the locals“ eins og þeir orðuðu það svo skemmtilega.

16.06.2019 – Bláskógaskokk HSK
Bláskógaskokk HSK verður haldið sunnudaginn 16. júní 2019 og hefst kl. 11:00.

Skráning og þátttökugjald
Hægt er að skrá sig á hlaup.is. Forskráningu á hlaup.is lýkur laugardaginn 15. júní kl. 22:00.

Skráningargjaldið eftirfarandi:
3.000 kr fyrir 17 ára og eldri (fædd 2002 og fyrr)
1.000 kr fyrir 16 ára og yngri (fædd 2003 og síðar)

Eins er skráð í Fontana á Laugarvatni frá kl. 9 til 10:30 á hlaupadag.

Keppendur þurfa að mæta við Fontana á Laugarvatni þar sem þeir staðfesta skráningu og fá afhent keppnisnúmer frá kl. 9:00 á keppnisdag. Hlaupurum verður ekið í Rútu frá Laugarvatni að rásmarki við Gjábakka (10 mílur) og á Laugardalvöllum (5 mílur).

Sérstök athygli er vakin á því að Fontana ætlar að bjóða hlaupurum frítt inn að hlaupi loknu (líkt og í fyrra).

Hlaupaleið
Hlaupið verður frá Gjábakka, austan Þingvallavatns eftir gamla Gjábakkavegi til Laugarvatns.

Tvær drykkjarstöðvar eru á hlaupaleiðinni. Engin bílaumferð verður á hlaupaleiðinni, meðan á hlaupinu stendur.

Vegalengdir
10 mílur (16,09 km) og 5 mílur (8,05 km) með tímatöku. Tímataka er með flögum.

Flokkaskipting
Bæði kyn.
16 ára og yngri
17-39 ára
40-49 ára
50 – 59 ára og eldri
60 – 9 ára og eldri
70 ára og eldri.

Verðlaun
Allir þátttakendur fá verðlaun. Sérverðlaun verða veitt fyrir fyrsta karl og fyrstu konu í hlaupinu. Verðlaunaafhending verður í Fontana á Laugarvatni strax eftir hlaup.

Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar veitir Ingvar Garðarsson í síma 482 2730 og 698 5730.

Fyrri greinGjöfin til íslenzkrar alþýðu
Næsta greinBæjarstjórn hefur áhyggjur af umferðarmálum í Öræfum