Fjöldi færa fór forgörðum

Selfyssingar náðu ekki að fylgja eftir frábærum sigri á Víkingi í síðustu umferð þegar þeir heimsóttu Hauka í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld

Selfyssingar byrjuðu með buxurnar á hælunum og gáfu Haukum tvö áþekk mörk eftir klafs í vítateignum á fyrstu sjö mínútum leiksins. Ingi Rafn Ingibergsson minnkaði muninn í 2-1 á 10. mínútu leiksins og þar við sat þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir beggja liða.

Javier Zurbano óð í færum upp við mark Hauka en markvörður heimamanna átti virkilega góðan dag. Haukar fengu einnig fjölda góðra færa og áttu tvívegis skot í tréverkið.

Rólegra var yfir seinni hálfleiknum en á lokamínútunum fengu bæði lið dauðafæri og Selfyssingar voru hársbreidd frá því að jafna metin undir lokin.

Með sigrinum fóru Haukar í efsta sæti deildarinnar en Selfyssingar eru áfram í 8. sæti en fjarlægjast óðum topplið deildarinnar og hafa tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum í deildinni.

Fyrri greinFæreysk stemmning á Stokkseyri
Næsta greinGreiddi háa sekt fyrir að tæma kamarinn