Fjóla varð önnur í Svíþjóð

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, varð í 2. sæti í sjöþraut á sænska meistaramótinu í fjölþrautum sem lauk í Huddinge í dag. Fjóla fékk 5.041 stig og bætti sig um 352 stig í þrautinni.

Lene Becher Myrmel frá Noregi sigraði með 5.136 stig en Sara Söderberg varð sænskur meistari með 4.760 stig.

Fjóla var í forystu eftir fyrri keppnisdaginn en í dag náði hún sínum besta árangri í langstökki og 800 m hlaupi, stökk 5,62 metra og hljóp á 2:16,00 mín. Hún náði sér hins vegar ekki á strik í spjótkastinu þar sem hún kastaði 23,90 metra. Þar réðust úrslitin í einvígi hennar og Myrmel.

Fjóla var ánægð með þrautina en þetta var fyrsta og eina sjöþrautarmót hennar á árinu. „Ég náði markmiði mínu, fór yfir 5.000 stigin, og bætti mig í nokkrum greinum. Ég veit samt að ég get gert betur en þetta en þetta var góður endir á flottu og löngu keppnistímabili hjá mér í sumar,“ sagði Fjóla í samtali við sunnlenska.is.

Fjóla býr í Falun í Svíþjóð og æfir þar með Falu IK undir handleiðslu þjálfarans Benke Blomkvist en aðalgrein Fjólu er grindahlaup.

Fyrri greinMannekla á erilsömum degi
Næsta greinSelfyssingar sáu rautt