Fjóla varð þrettánda á Madeira

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, varð í 13. sæti í sjöþraut á Evrópubikarmótinu í fjölþrautum sem fram fór á eyjunni Madeira í Portúgal um helgina.

Fjóla fékk 4.933 stig í þrautinni sem er 108 stigum frá hennar besta árangri og 271 stigi frá 28 ára gömlu héraðsmeti Birgittu Guðjónsdóttur.

Í gær hljóp Fjóla 100 m grindahlaup á 14,67 sek, stökk 1,69 m í hástökki, kastaði kúlunni 9,87 m og bætti sig þar og hljóp svo 200 m hlaup á 26,09 sekúndum. Í dag stökk hún 5,38 m í langstökki, kastaði 25,98 m í spjótkasti og hljóp svo 800 m hlaup á 3. besta tíma dagsins, 2:19,56 mín.

Evrópubikarmótið er liðakeppni þar sem Ísland keppir í 2. deild. Hjá konunum varð Sveinbjörg Zophoníasdóttir, FH, í 3. sæti með 5.479 stig sem er bæting á hennar besta árangri. María Rún Gunnlaugsdóttir, Ármanni, bætti sig sömuleiðis og varð í 7. með 5.321 stig en Arna Stefanía Guðmundsdóttir, ÍR, hætti keppni eftir spjótkastið í dag.

Næsta verkefni Fjólu Signýjar er Landsmót UMFÍ sem hefst á Selfossi í fimmtudaginn en þar keppir hún í 100 og 400 m grindahlaupi, hástökki, langstökki, 200 m hlaupi og boðhlaupum.

Fyrri greinVeiðivötnin lifna við
Næsta greinRangæingar réðu ekki við Fjarðabyggð