Fjóla vann silfur og brons

Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, vann til silfur- og bronsverðlauna í grindahlaupi á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg í dag.

Fjóla hljóp mjög vel í 100m grindahlaupinu í blankalogni og bætti sinn besta tíma. Hún hljóp á 14,41 sekúndu og bætti 26 ára gamalt HSK met Þórdísar Gísladóttur sem var 14,46 sek. Fyrir átti Fjóla tímann 14,47 sekúndur.

Hún náði sér hins vegar ekki á strik í 400m grindahlaupinu þar sem hún kom þriðja í mark á tímanum 62,26 sek sem er nokkuð frá hennar besta. Fjóla fór hægt af stað í hlaupinu og rak hné í fyrstu grindina og náði ekki flugi eftir það.

Síðasta grein Fjólu Signýjar á Smáþjóðaleikunum er 4x400m hlaup með boðhlaupssveit Íslands en boðhlaupin verða hlaupin á laugardaginn.

Fyrri greinHrós dagsins . . .
Næsta greinEldri borgarar heimsóttu Eyrarbakka