Fjóla vann gull í æsispennandi hlaupi

Fjóla efst á verðlaunapalli ásamt Beatrice Berti frá San Marínó og Lise Boryna frá Mónakó. Ljósmynd/Kristófer Þorgrímsson

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, gerði sér lítið fyrir og sigraði í 400 m grindahlaupi í dag á Smáþjóðaleikunum sem fara fram í Svartfjallalandi.

„Ég er svo glöð að hafa unnið,“ sagði Fjóla með tárin í augunum að verðlaunaafhendingunni lokinni. „Fyrir mig er þetta svo mikill sigur því ég er búin að vera í meiðslum og veikindum og fæðingarorlofi síðustu fimm, sex árin og það eru rosalega margir dagar sem eru erfiðir þar. En að halda áfram og ná að komast aftur í form og vinna, og heyra þjóðsönginn af því að ég vann… ég er ekki hætt. Ég á eftir að hlaupa hraðar í sumar og nú er ég búin að stimpla mig inn aftur,“ sagði Fjóla.

Fjóla hljóp á 1:02,60 mínútum og var hlaupið spennandi allt fram til seinasta metra þar sem aðeins munaði 0,03 sekúndum á Fjólu og Beatrice Berti frá San Marino, sem lenti í öðru sæti.

Frjálsíþróttalandsliðið átti frábæru gengi að fagna á keppnisvellinum í dag en Íslendingarnir unnu fimm gullverðlaun og eitt silfur. Meðal annarra gullverðlaunahafa var Ívar Kristinn Jasonarson, ættaður frá Vorsabæjarhóli í Flóa, sem sigraði með yfirburðum í 400 m grindahlaupi karla.

Frjálsíþróttakeppni Smáþjóðaleikanna lýkur á morgun en þá mun Fjóla Signý keppa í 100 m grindahlaupi.

Fyrri greinBifhjól fór útaf í Kömbunum
Næsta greinÖrvhentur en kasta með hægri