Fjóla vann þrenn gullverðlaun

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, sigraði í þremur greinum á Kópavogsmótinu í frjálsum íþróttum sem fram fór á Kópavogsvelli í kvöld.

Fjóla Signý sigraði í 100 m hlaupi á persónulegu meti 12,54 sek, 100 m grindahlaupi á 14,66 sek og 400 m hlaupi bætti hún sig einnig og hljóp á 57,32 sek. Í 400 m hlaupinu varð Sólveig Helga Guðjónsdóttir, Umf. Selfoss, þriðja á 63,65 sek.

HSK vann þrefalt í 110 m grindahlaupi karla. Gamla kempan Ólafur Guðmundsson, Umf. Laugdæla, sigraði á 16,68 sek, Haraldur Einarsson, Umf. Vöku, varð annar á 17,32 sek og Hreinn Heiðar Jóhannsson, Umf. Laugdæla, þriðji á 17,36 sek.

Hreinn Heiðar varð annar í hástökki, stökk 1,85 sm. Mótið í Kópavogi var lokamótið í stigakeppni Frjálsíþróttasambandsins og í stökkflokki hjá körlum stóð Hreinn Heiðar efstur í lok sumars og hlaut að launum flugmiða til Evrópu í verðlaun.

Thelma Björk Einarsdóttir, Umf. Selfoss, varð þriðja í kringlukasti kvenna með kast upp á 25,08 m og Ólafur Guðmundsson varð þriðji hjá körlunum, kastaði 37,15 m.

Thelma Björk hlaut síðan silfrið í spjótkasti, kastaði 28,85 m og Hulda Sigurjónsdóttir, Íþf. Suðra, varð þriðja með kast sem var sléttir 17 metrar.