Fjóla stóð sig vel í Belgíu

Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, varð í 2. sæti í 400 m grindahlaupi á alþjóðlegu Grand Prix móti í frjálsum íþróttum í Mouscron í Belgíu í kvöld.

Fjóla hljóp hringinn á 62,75 sekúndum en sigurvegari í hlaupinu varð heimakonan Axelle Dauwens en hún var meðal keppenda á heimsmeistaramótinu sem haldið var í Moskvu á dögunum. Fjóla hljóp einnig 100 metra grindahlaup á 14,94 sek í miklum mótvindi og skilaði tíminn henni fjórða sætinu.

Fjóla var ekki eini Íslendingurinn á mótinu því Hafdís Sigurðardóttir, UFA, mætti einnig til leiks og kom sá og sigraði í báðum keppnisgreinum sínum. Hafdís keppti í langstökki og 200 metra hlaupi. Í langstökkinu sigraði hún með yfirburðum með stökki upp á 6,25 metra og var aðeins 11 sm frá Íslandsmeti sínu sem hún setti fyrr í sumar. Hafdís kom svo fyrst í mark í 200 metra hlaupi á tímanum 24,12 sekúndum.

Þær Hafdís og Fjóla koma aftur til Íslands á morgun og munu þær næst keppa á bikarmóti sem haldið verður 30. og 31. ágúst í Laugardalnum. Þar verða þær í eldlínunni og leika báðar lykilhlutverk í sínum liðum, UFA og HSK.

Fyrri greinHamar tapaði í Vesturbænum
Næsta greinTíu ár liðin frá sögufrægum tónleikum