Fjóla Signý tvöfaldur meistari

Fjóla Signý Hannesdóttir, HSK, varð í kvöld tvöfaldur bikarmeistari þegar hún sigraði í hástökki og 400 m grindahlaupi á Bikarkeppni FRÍ á Kópavogsvelli.

Fjóla bætti sig í 400 m grindahlaupinu, hljóp á 60,63 sek og setti nýtt HSK met. Hún stökk síðan 1,64 m til sigurs í hástökki og varð þriðja í nokkuð jafnri þrístökkskeppni þegar hún stökk 11,26 m.

Vigdís Guðjónsdóttir var nálægt sigri í spjótkastinu en hún kastaði 45,86 m. Ásdís Hjálmsdóttir úr Fjölni/Ármanni kastaði 45,92 m í síðustu umferð og fór með sigur af hólmi.

Kristinn Þór Kristinsson varð annar í 1.500 m hlaupi á 3:58,12 mín. Kristinn Þór stórbætti sig í hlaupinu en tími hans er HSK met í piltaflokki 20-22 ára flokki. Gamla metið átti hestamaðurinn Steindór Guðmundsson frá Selfossi, 4:10,91 mín sett árið 1991.

Agnes Erlingsdóttir varð þriðja í 1.500 m hlaupi kvenna á 4:52,95 mín og þá kastaði Ólafur Guðmundsson 13,34 m í kúluvarpi og varð þriðji.

Sveit HSK í kvennaflokki setti héraðsmet í stúlknaflokki 20-22 ára í 4×100 m boðhlaupi. HSK hljóp á 50,32 sek en gamla metið var síðan 1999 og var 50,99 sek. Tíminn er einnig félagsmet þar sem stúlkurnar eru allar í Umf. Selfoss og er þetta því hraðasti tími sem félagssveit hefur hlaupið á innan HSK. Gamla metið var 50,50 sek, sem Selfoss setti í fyrra.

Lið HSK er í 4. sæti að loknum fyrri keppnisdegi með 58 stig en ÍR hefur 86 stig í efsta sæti.

Fyrri greinFrábær sigur KFR
Næsta greinLífrænn dagur á Sólheimum