Fjóla Signý og Guðrún Heiða afreksmenn ársins

Fjóla Signý Hannesdóttir og Guðrún Heiða Bjarnadóttir voru verðlaunaðar sem afreksmenn ársins 2010 á aðalfundi frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss í kvöld.

Fjóla Signý er afreksmaður ársins í meistaraflokki en hún átti góðu gengi að fagna á síðasta ári og uppskar m.a. fimm Íslandsmeistaratitla í ungkvennaflokki.

Guðrún Heiða er afreksmaður deildarinnar 14 ára og yngri. Guðrún Heiða náði góðum árangri á síðasta ári, m.a. fjóra Íslandsmeistaratitla, þrjá Unglingalandsmótstitla og tvö gull á bikarkeppni FRÍ.

Dagur Fannar Magnússon fékk framfarabikar meistaraflokks en Dagur leggur stund á sleggjukast og bætti hann sinn besta árangur um 17 metra á síðasta ári. Dagur bætti sig þar að auki í sjö öðrum keppnisgreinum.

Sigþór Helgason fékk framfarabikar 14 ára og yngri en Sigþór er fjölhæfur íþróttamaður sem bætti sig gríðarlega á síðasta ári í 60 m hlaupi, hástökki, langstökki, þrístökki og spjótkasti. Sigþór vann þrjá Íslandsmeistaratitla á árinu og vann fjölda verðlauna á unglingalandsmótinu.

Yngri iðkendur fengu mætingabikara, Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir í flokki 5-8 ára ára, Unnur María Ingvarsdóttir í flokki 9-11 ára og Teitur Örn Einarsson í flokki 12-14 ára.

Á fundinum kom fram að rekstur deildarinnar gengur vel en hagnaður af rekstri síðasta árs var rúma 800 þúsund krónur. Helgi S. Haraldsson var endurkjörinn formaður deildarinnar fjórtánda árið í röð.

Mikil ánægja er innan deildarinnar með nýjan frjálsíþróttavöll sem tekinn verður í notkun í sumar. Nýji völlurinn er gjörbylting á aðstöðu frjálsíþróttamanna á Selfossi og verða fjölmörg mót haldin á honum í sumar, m.a. Meistaramót Íslands í flokki fullorðinna.