Fjóla Signý og Dagur Fannar Íslandsmeistarar í fjölþrautum

Fjóla Signý Hannesdóttir. Ljósmynd/selfoss.net

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, varð um helgina Íslandsmeistari í sjöþraut kvenna og Dagur Fannar Einarsson, Umf. Selfoss, varð Íslandsmeistari í tugþraut í flokki 16-17 ára.

Meistaramót Íslands í fjölþrautum fór fram um síðustu helgi á Akureyri. Veðuraðstæður voru fremur óhagstæðar, kuldi og vindur sem gerðu þrautina enn erfiðari fyrir keppendur auk þess sem ekki var löglegur vindur í spretthlaupum.

Fjóla Signý sigraði í sjöþrautinni með 4.529 stig eftir dramatíska baráttu á lokakaflanum. Hún hljóp 200 m á 26,81 sek, 100 m grind á 14,55 sek, stökk 1,64 m í hástökki og 5,20m í langstökki. Fjóla kastaði kúlunni 9,61 m og spjótinu 23,72 m og endaði á því að hlaupa 800 m á 2:34,37 mín.

Dagur Fannar sigraði í tugþraut í flokki 16-17 ára með 6.291 stig, sem er yfir hans eigin HSK meti, en þar sem vindur var yfir leyfilegum mörkum er ekki um met að ræða. Dagur Fannar hljóp 100 m á 11,54 sek, 400 m á 53,22 sek og 1.500 m á 4:40,42 mín. Hann hljóp 110 m grindina á tímanum 15,32 sek, stökk yfir 1,72m í hástökki og stökk 6,40 m í langstökki. Í stangarstökki flaug hann yfir 3,54 m og hann kastaði kúlunni 12,12 m og spjótið flaug 46,38 m.

Haukur Arnarson, Umf. Hrunamanna, varð í 2. sæti í fimmtarþraut pilta 15 ára og yngri með 2128 stig. Haukur hljóp 200 m á 25.57 sek, 1.500 m á 5:46,24 mín, stökk 5,83 m í langstökki, kastaði kringlu 24,56 m og spjóti 32,68 m.

Fyrri grein„Vörur sem færa gleði og vellíðan í lífið“
Næsta greinSelfoss tapaði gegn ÍR