Fjóla Signý með annað gull á Smáþjóðaleikunum

Fjóla Signý fagnar gullverðlaunum á Smáþjóðaleikunum. Ljósmynd/Aðsend

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, bætti öðrum gullverðlaunum í verðlaunasafnið á lokadegi Smáþjóðaleikanna í Svartfjallalandi í gær.

Fjóla Signý var í sveit Íslands í 4×400 m boðhlaupi sem sigraði á tímanum 3:49,42 mín. Ásamt Fjólu voru í sveitinni þær Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, María Rún Gunnlaugsdóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir. 

Á fimmtudag keppti hún í 400 m hlaupi sem hún sigraði eftir æsispennandi keppni.

Fjóla keppti einnig í 100 m grindahlaupi í gær og varð í 4. sæti á tímanum 14,82 sek eftir harða keppni.

Fyrri grein„Gott fyrir jörðina að planta trjám“
Næsta greinBarbára tryggði Selfossi sigur í framlengingu