Fjóla Signý með forystu í Svíþjóð

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, er með forystu eftir fyrri daginn á sænska meistaramótinu í sjöþraut sem fram fer í Huddinge í Svíþjóð nú um helgina.

Fjóla Signý er alls með 3.065 stig eftir fyrri daginn á mótinu. Hún hljóp 100 m grind á 14,61 sekúndu í mótvindi. Fjóla Signý stökk 1,69 m í hástökki sem er persónulegt met hjá henni. Í kúluvarpi kastaði hún kúlunni 9,36 m sem er þó nokkuð frá hennar besta. Fjóla hljóp svo 200 m á 25,51 sekúndu sem er persónulegt met hjá henni auk þess sem það er nýtt HSK met. Þess má geta að fyrr í sumar bætti Fjóla Signý þetta sama met sem var þá 30 ára gamalt.

Ég er ánægð með daginn og það er mjög líklegt að ég nái mínum markmiðum, sem er að ná 5.000 stigum. Það er auka bónus ef ég næ að halda áfram fyrsta sætinu, því að keppnin verður mjög jöfn og spennandi á morgun – það getur allt gerst, sagði Fjóla Signý í samtali við sunnlenska.is.

Það verður spennandi að sjá hvort Fjóla Signý nær að bæta 27 ára gamalt HSK met Birgittu Guðjónsdóttur í sjöþraut á morgun, sem er 5.204 stig.

Fyrri greinFrábær stemmning í Hrunaréttum
Næsta greinReynir reyndist sterkari