Fjóla Signý Íslandsmeistari í fimmtarþraut

Fjóla Signý Hannesdóttir, HSK/Selfoss, tryggði sér í dag Íslandsmeistaratitilinn í fimmtarþraut kvenna innanhúss.

Meistaramót Íslands í fjölþrautum innanhúss fór fram um helgina í Laugardalshöllinni og var Fjóla eini keppandi HSK/Selfoss á mótinu.

Fjóla var í þriðja sæti eftir tvær fyrstu keppnisgreinarnar, 60 m grindahlaup sem hún hljóp á 9,36 sek og hástökk þar sem hún stökk 1,60 m.

Hún varð síðan önnur í kúluvarpi með 8,69 m en sigraði í tveimur síðustu greinunum, langstökki þar sem hún stökk 5,17 m og 800 m hlaupi á 2:25,14 mín.

Fjóla fékk 3.377 stig í þrautinni en önnur var ÍR-ingurinn Helga Þráinsdóttir Hafsteinssonar með 2.840 stig.