Fjóla Signý Íþróttamaður HSK 2011

Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, var valin íþróttamaður HSK árið 2011 úr hópi rúmlega tuttugu tilnefndra íþróttamanna.

Sérstök valnefnd, skipuð af stjórn sambandsins, velur íþróttamann HSK eftir tilnefningar nefnda og sérráða sambandsins. Íþróttamennirnir voru verðlaunaðir á ársþingi HSK í Brautarholti á Skeiðum í dag.

Fjóla Signý náði glæsilegum árangri á árinu 2011. Á meistaramótum og bikarkeppnum ársins varð hún þrefaldur Íslandsmeistari og fjórfaldur Bikarmeistari í fullorðinsflokki í sínum sterkustu greinum, þ.e. 100 m grindahlaupi, 400 m grindahlaupi og hástökki og var í verðlaunasæti í öllum öðrum greinum sem hún keppti í á þeim mótum. Hún vann svo til átta gullverðlauna á Unglingameistaramóti Íslands auk nokkurra silfur og bronsverðlauna.

Þá varð hún Íslandsmeistari í fimmtarþraut innanhúss og sjöþraut utanhúss með nokkurhundruð stiga bætingu í bæði skiptin. Alls vann hún 31 verðlaun átta stærstu mótum ársins og setti átján HSK met á árinu.

Fjóla náði þeim frábæra árangri að vera valin í A-landslið Íslands, í 100 m og 400 m grindahlaupi og í 4×400 m boðhlaupi. Fjóla keppti í Evrópukeppni landsliða í Reykjavík í lok júní og stóð sig frábærlega, varð þriðja í 400 m hlaupi og hljóp lokasprettinn í 4×400 m boðhlaupi þar sem sveit Íslands landaði silfurverðlaunum.

Fjóla sigraði í 400 m grindahlaupi á Eyrarsundsleikunum í Svíþjóð og náði að auki silfurverðlaunum í 100 m grindahlaupi. Á mjög sterku alþjóðlegu móti í Finnlandi náði hún 4. sæti í 400 m grindahlaupi á nýju HSK meti og sló þar með 17 ára gamalt met.

Íþróttamenn einstakra greina:
Badmintonmaður HSK: Imesha Chaturanga, Hamri
Blakmaður HSK: Hugrún Ólafsdóttir, Hamri,
Borðtennismaður HSK: Bergrún Linda Björgvinsdóttir, Dímon
Briddsmaður HSK: Sigurður Skagfjörð, Dímon
Fimleikamaður HSK: Helga Hjartardóttir, Umf. Selfoss
Frjálsíþróttamaður HSK: Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss
Golfmaður HSK: Andri Már Óskarsson, GHR
Glímumaður HSK: Marín Laufey Davíðsdóttir, Samhygð
Handkattleiksmaður HSK: Atli Kristinsson, Umf. Selfoss
Hestaíþróttamaður HSK: Sigursteinn Sumarliðason, Sleipni
Íþróttamaður fatlaðra: Hulda Sigurjónsdóttir, Suðra
Judómaður HSK: Þór Davíðsson, Umf. Selfoss
Knattspyrnumaður HSK: Guðmunda Brynja Óladóttir, Umf. Selfoss
Kraftlyftingamaður HSK: Rósa Birgisdóttir, Umf. Selfoss
Körfuknattleiksmaður HSK: Íris Ásgeirsdóttir, Hamri
Mótorkrossmaður HSK: Einey Ösp Gunnarsdóttir, Umf. Selfoss
Skákmaður HSK: Ingibjörg Edda Birgisdóttir, Umf. Selfoss
Skotíþróttamaður HSK: Jónas Sigurðsson, Skotíþróttafélagi Suðurlands
Starfsíþróttamaður HSK: Jón M. Ívarsson, Samhygð
Sundmaður HSK: Ólöf Eir Hoffritz, Umf. Selfoss
Taekwondomaður HSK: Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, Umf. Selfoss

Fyrri greinÞórir og Markús sæmdir gullmerki ÍSÍ
Næsta greinHamar lá gegn Njarðvík