Fjóla og Kristinn bættu titlum í safnið

Fjóla Signý Hannesdóttir sigraði í 400 m grindahlaupi og hástökki, og Kristinn Þór Kristinsson í 800 m hlaupi á seinni degi Meistaramóts Íslands í frjálsum íþróttum sem lauk í dag á Laugardalsvellinum.

Fjóla Signý sigraði örugglega í 400 m grindahlaupi á nýju HSK meti, 59,62 sek og bætti sig um rúma sekúndu. Þá hreppti hún einnig gullið í hástökki, stökk yfir 1,66 metra í fyrstu tilraun og tryggði sér þar með titilinn. Fyrir mótið átti Fjóla þrjá Íslandsmeistaratitla að verja og tókst henni að verja þá alla.

Kristinn Þór Kristinsson sigraði örugglega í 800 m hlaupi karla á 1:55,15 mín og Bjarni Már Ólafsson var hársbreidd frá Íslandsmeistaratitlinum í þrístökki en hann stökk 14,06 metra í sínu síðasta stökki og var aðeins tveimur sentimetrum á eftir sigurvegaranum. Bjarni bætti sig um 6 sm í stökkinu.

Ólafur Guðmundsson varð þriðji í kringlukasti, kastaði 38,30 metra og Ágústa Tryggvadóttir varð þriðja í kúluvarpi með kast upp á 10,94 metra. Sjö af ellefu keppendum í kúluvarpi kvenna komu frá HSK/Selfoss.

Þá varð sveit HSK/Selfoss í 2. sæti í 4×400 m boðhlaupi kvenna á 4:07,07 mín.