Fjóla og Haukur íþróttafólk HSK 2019

Þröstur Ingvarsson, faðir Hauks, og Fjóla Signý með verðlaunin á héraðsþinginu í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir og handknattleiksmaðurinn Haukur Þrastarson, bæði úr Ungmennafélagi Selfoss, voru í dag útnefnd íþróttakona og íþróttakarl Héraðssambandsins Skarphéðins árið 2019.

Héraðsþing HSK fer fram í Hvolnum á Hvolsvelli í dag, en því var frestað í marsmánuði vegna COVID-19.

Fjóla Signý var fulltrúi Íslands á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi þar sem hún keppti í þremur greinum. Hún kom heim af mótinu með tvö gull, annars vegar fyrir 400 m grindahlaup og hins vegar var hún í sigursveit Íslands í 4×400 m hlaupi. Fjóla Signý varð einnig Íslandsmeistari í sjöþraut utanhúss árið 2019. Fjóla varð einnig HSK meistari í fjölmörgum greinum, bæði innan- og utanhúss.

Haukur var lykilmaður í liði Selfoss, sem landaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli vorið 2019. Hann var jafnframt valinn efnilegasti leikmaður Olísdeildarinnar. Haukur lék vel með Selfyssingum fyrri hluta keppnistímabilsins 2019-2020 og var um áramótin markahæsti leikmaður deildarinnar. Hann lék með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi og varð þar með yngsti leikmaðurinn í sögu Íslands til þess að leika á stórmóti í handbolta.

Þau sem tilnefnd voru í kjörinu auk Fjólu og Hauks voru:

Hrund Guðmundsdóttir, Hamri, badmintonkona ársins
Lucie Delfoss, Dímon-Heklu, blakkona ársins
Evelyn Þóra Jósefsdóttir, Selfoss, fimleikakona ársins
Heiðrún Anna Hlynsdóttir, GOS, golfkona ársins
Marín Laufey Davíðsdóttir, Þjótanda, glímukona ársins
Hulda Dís Þrastardóttir, Selfoss, handknattleikskona ársins
Olil Amble, Sleipni, hestaíþróttakona ársins
Sigríður Sigurjónsdóttir, Suðra, íþróttakona fatlaðra
Barbára Sól Gísladóttir, Selfoss, knattspyrnukona ársins
Íris Ásgeirsdóttir, Hamri, körfuknattleikskona ársins
Gyða Dögg Heiðarsdóttir, Selfoss, motocrosskona ársins
Helga Jóhannsdóttir, SFS, skotíþróttakona ársins
Dagný María Pétursdóttir, Selfoss, taekwondokona ársins
Steingrímur Bjarnason, Torfæruklúbbi Suðurlands, akstursíþróttamaður ársins
Roberto Guarino, Hamri, blakmaður ársins
Sindri Snær Bjarnason, Selfoss, fimleikamaður ársins
Dagur Fannar Einarsson, Selfoss, frjálsíþróttamaður ársins
Aron Emil Gunnarsson, GOS, golfmaður ársins
Guðmundur F. Björgvinsson, Geysi, hestaíþróttamaður ársins
Reynir Arnar Ingólfsson, Suðra, íþróttamaður fatlaðra
Egill Blöndal, Selfoss, júdómaður ársins
Guðmundur Tyrfingsson, Selfoss, knattspyrnumaður ársins
Halldór Garðar Hermannsson, Þór, körfuknattleiksmaður ársins
Heiðar Örn Sverrisson, Þór, motocrossmaður ársins
Hákon Þór Svavarsson, SFS, skotíþróttamaður ársins
Þorsteinn Ragnar Guðnason, Selfoss, taekwondomaður ársins

 

Fyrri greinTelma og Bjarni héraðsmeistarar í golfi fatlaðra
Næsta greinAllt í járnum á Álftanesi