Fjóla nálægt EM lágmarki

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, varð fjórða í 400 m grindahlaupi á alþjóðlegu frjálsíþróttamóti í Kuortaneen í Finnlandi í dag. Fjóla bætti sig mikið og er nálægt lágmarki á EM U23 ára.

Fjóla hljóp á 60,78 sekúndum og bætti persónulegan árangur sinn um eina og hálfa sekúndu. Auk þess bætti hún sautján ára gamalt HSK met Þuríðar Ingvarsdóttur um rúmlega hálfa sekúndu en met Þuríðar var 61,35 sek. Þessi árangur Fjólu Signýjar er besta afrek íslenskrar konu í 400m grindahlaupi á árinu og sjá sjöundi besti frá upphafi á Íslandi.

Norðmaðurinn Stine Stomb sigraði með yfirburðum í hlaupinu en hörkukeppni var um annað sætið og var Fjóla aðeins átján hundruðustu frá því.

Fjóla Signý keppir nú að því að ná lágmarki fyrir Evrópumeistaramót U23 ára sem fram fer í Tékklandi í ágúst. Lágmarkið er 60,50 sekúndur og stefnir Fjóla að því að ná því á Eyrarsundsleikunum sem fram fara í Helsingborg í Svíþjóð um næstu helgi.

Fyrri greinHlaupið í naflanum
Næsta greinHamar rústaði Dalvík/Reyni