Fjóla náði NM-lágmarki

Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, náði í kvöld lágmarki fyrir Norðurlandamót 20-22 ára í 400 m grindahlaupi.

Bikarkeppni FRÍ hófst á Sauðárkróki í kvöld og þar hljóp Fjóla 400 m grindahlaup á 62,25 sek og varð þriðja. Hún bætti sig um 1,5 sek í hlaupinu og var að vonum ánægð með árangurinn. „Já, þetta er það sem ég er búin að bíða eftir í allt sumar og það var frábært að ná lágmarkinu í kvöld,“ sagði Fjóla í samtali við sunnlenska.is. Hún var í miklu stuði í kvöld og stökk 11,57 sm í þrístökki sem dugði í þriðja sæti, aðeins 10 sm á eftir fyrsta sætinu og að lokum stökk hún 1,60 m í hástökki og vann silfurverðlaun.

Haraldur Einarsson náði glæsilegum árangri í 400 m hlaupi þar sem hann sigraði og varð bikarmeistari á 50,43 sek sem er persónulegt met hjá Flóamanninum fótfráa.

Anna Pálsdóttir varð önnur í spjótkasti, kastaði 37,93 m og Agnes Erlendsdóttir varð þriðja í 1500 m hlaupi á 4:56,23 mín.

Eftir fyrri keppnisdaginn er lið HSK í 4. sæti í heildarstigakeppninni og sömuleiðis í karla og kvennakeppninni.

Fyrri greinSálin lokar sumrinu á 800
Næsta greinOlga með tvö í 3-0 sigri