Fjóla með brons á Evrópumótinu

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, stórbætti sig og varð í 3. sæti í 400 m hlaupi kvenna í Evrópukeppni landsliða í frjálsum íþróttum sem fram fer á Laugardalsvellinum um helgina.

Fjóla Signý varð langfyrst í mark í sínum riðli á tímanum 57,52 sek og bætti sig um tæpar þrjár sekúndur. Í seinni riðlinum hlupu tveir keppendur hraðar þannig að bronsið var Fjólu. Mjótt var á mununum því Fjóla var aðeins 0,02 sekúndum á undan Ksenija Kecman frá Bosníu sem varð í 4. sæti. Sigurvegarinn, Amalia Sharoyan, frá Armeníu hljóp á 54,98 sek.

Hreinn Heiðar Jóhannsson, Umf. Laugdæla, keppti fyrir Íslands hönd í hástökki í dag og varð í 9. sæti, stökk 1,95 m.

Mótinu lýkur á morgun en þá keppir Fjóla Signý í 100 m grindahlaupi og Agnes Erlingsdóttir, Umf. Laugdæla, keppir í 1500 m hlaupi. Fjóla og Haraldur Einarsson, Umf. Vöku, eru síðan í boðhlaupssveitum Íslands í 4×400 m hlaupi.

Fyrri grein7,3 milljónir á Suðurland
Næsta greinDauft yfir Árborgurum