Fjóla keppti í Noregi

Fjóla Signý Hannesdóttir, frjálsíþróttakona úr Umf. Selfoss, keppti í dag á sterku móti Hyundai Grand Prix í Florø í Noregi.

Fjóla hljóp á 61,15 sekúndum og varð þriðja í sínum riðli, 0,52 sekúndum frá sínum besta árangri. Fjóla varð sjöunda í hlaupinu en Stefanía Valdimarsdóttir, Breiðabliki, varð sjötta á 60,84 sekúndum.

Fjóla og Stefanía hlupu síðan 4×400 m boðhlaup með sveit Íslands sem varð í 3. sæti á tímanum 3:44,69 mín. Auk þeirra skipuðu sveitina þær Hafdís Sigurðardóttir, Umf. Akureyrar, og Aníta Hinriksdóttir, ÍR.

Mótið í Noregi er mjög sterkt en meðal þátttakenda eru íþróttamenn sem hafa tryggt sér farseðil á Evrópumeistaramótið og Ólympíuleikana á þessu ári.