Fjóla keppir á sænska meistaramótinu

Frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir skrifaði nýverið undir samning þess efnis að hún muni keppa fyrir íþróttafélagið Falu IK á sænska meistaramótinu frjálsum íþróttum í sumar.

Sænska frjálsíþróttasambandið setur þær reglur að keppendur á sænska meistaramótinu megi ekki vera landsmeistarar í öðru landi. Fjóla mun því aðeins keppa sem gestur á Íslandsmeistaramótinu í sumar og má ekki taka við Íslandsmeistaratitli ef hún vinnur í einhverri keppnisgrein. Hún má hins vegar keppa á Bikarmóti FRÍ en þar er hún lykilmanneskja í liði HSK.

„Ég geri mér fyllilega grein fyrir mikilvægi mínu hjá HSK og keppti því ekki á SM í fyrra því það var sömu helgi og bikarmótið,“ segir Fjóla, en hún er fyrirliði kvennaliðs HSK. Fjóla hefur undanfarin ár verið ein af fremstu grindarhlaupurum og hástökkvurum landsins.

Sænska meistamótið er mjög stórt mót en aðeins Svíar, eða þeir sem hafa búið í Svíþjóð í meira en eitt ár mega keppa á mótinu. Fjóla Signý hefur búið í Svíþjóð í bráðum tvö og hálft ár þar sem hún hefur þjálfað undir leiðsögn hins virta grindahlaupsþjálfara Benke Blomkvist. Fjóla mun flytja aftur heim til Íslands í sumar en heldur þó samstarfinu við Benke áfram.

Fjóla keppti ekkert innanhúss í vetur vegna meiðsla en hún varð fyrir því óhappi að lenda í tveimur umferðaslysum í haust. Að hennar sögn ganga æfingar vel núna og verður spennandi að sjá hvernig henni mun ganga í sumar.

Fyrri greinÁrborg vann góðan sigur
Næsta greinLionsklúbburinn Dynkur stofnaður