Fjóla að komast í fyrra form

Fjóla Signý í miðið í keppni við Maríu Rún Gunnlaugsdóttur, FH og Irmu Gunnarsdóttur, Breiðabliki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

HSK sendi ungt og efnilegt lið til keppni á Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands sem fram fór í Kaplakrika þann 2. mars sl.

Lið HSK samanstóð af reynsluboltum í bland við unga og efnilega frjálsíþróttamenn sem öll stóðu sig mjög vel. Þó nokkuð var um meiðsli í liðinu en maður kemur í manns stað. Afrakstur dagsins var eitt silfur en nokkrar persónulegar bætingar litu dagsins ljós. Lið HSK hafnaði í fimmta sæti af átta liðum.

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, sem reynslumesti keppandi HSK fór fyrir HSK liðinu og stóð sig vel. Hún sýndi svo ekki verður um vilst að hún er að ná sýnu fyrra formi aftur, en Fjóla varð til að mynda önnur í 60 m grindahlaupinu rétt við sitt besta. Þá varð hún fjórða í þrístökki, en var óheppin með lengstu stökkin sín þar og hefði hæglega getað sigrað þessa grein.

Unnur Kjartansdóttir Umf. Bisk. bætti sig í hástökki um 5 cm er hún vippaði sér yfir 1,55 m, Máni Snær Benediktsson, Umf. Hrun., bætti sig vel í 1500 m hlaupi er hann kom í mark á 4:52,45 mín. Þá bætti Birta Sigurborg Úlfarsdóttir Dímon sig 400 m um 15 sekúndubrot, hljóp á 62,40 sek.

„Aðrir stóðu sig einnig mjög vel enda liðið ungt og verður án efa í keppni um bikarmeistaratitil félagsliða innan skamms tíma. Það sem einkenndi HSK liðið þennan dag var samheldni, einbeiting og jákvæðni og allir lögðu sig hundrað og fimmtíu prósent fram.  Það eru bjartir tímar framundan,“ segir Ólafur Guðmundsson, frjálsíþróttaþjálfari.

Bikarlið HSK innanhúss ásamt þjálfurum. Ljósmynd/HSK
Fyrri greinSunnudagsspjall með Ólafi
Næsta greinNaumt tap gegn meisturunum