Fjögurra mínútna áhlaup skilaði sigri gestanna

FSu fékk topplið Tindastóls í heimsókn í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Sauðkrækingar kláruðu leikinn með snörpu áhlaupi í 3. leikhluta og sigruðu 89-100.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en staðan í leikhléi var 50-51, gestunum í vil.

Um miðjan 3. leikhluta náði Tindastóll 3-20 áhlaupi þar sem gestirnir breyttu stöðunni úr 56-58 í 59-78 og fóru þannig langleiðina með að gera út um leikinn.

FSu náði ekki að brúa bilið en munurinn varð minnstur níu stig undir lok 4. leikhluta.

Ari Gylfason var stigahæstur hjá FSu með 29 stig en Collin Pryor var með mesta framlagið; 19 stig og 20 fráköst. Daði Berg Grétarsson skoraði 14 stig, Svavar Ingi Stefánsson 13, Hlynur Hreinsson 8, Erlendur Ágúst Stefánsson 5 og Arnþór Tryggvason 1.

Fyrri greinLögregla rannsakar hvarf á köttum
Næsta greinLeikfélag Selfoss frumsýnir Maríusögur