Fjögur verðlaun til HSK/Selfoss

Keppendur HSK/Selfoss unnu til fjögurra verðlauna á seinni degi Meistaramóts Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fór á Laugardalsvelli.

Eyrún Halla Haraldsdóttir vann silfurverðlaun í kringlukasti, kastaði 30,35 m, rúmum einum og hálfum metra lengra en Anna Pálsdóttir sem hlaut bronsið með kast upp á 28,77 m.

Þær komust hins vegar ekki á pall í kúluvarpi þar sem Anna varð fjórða með 10,40 m og Eyrún fimmta með 9,02 m kast.

Bjarni Már Ólafsson varð þriðji í þrístökki, stökk 13,59 og sló við Ólafi Guðmundssyni sem stökk 13,16 m og varð fjórði.

Fjóla Signý Hannesdóttir bætti sig í 400 m grindahlaupi, hljóp á 63,98 sek og vann bronsverðlaun. Hún var hins vegar nokkuð frá sínu besta í hástökki, stökk 1,52 m og varð í 4.-7. sæti.

HSK/Selfoss varð í fjórða sæti í heildarstigakeppni félaganna með 11.620 stig. Í stigakeppni kvenna var HSK/Selfoss í 3. sæti en í 6. sæti í karlakeppninni.

Fyrri greinÁslaug Ýr valin sumarstúlkan
Næsta greinStórsigur á Egilsstöðum