Fjögur rauð á loft á Ólafsfirði

Dimitrije Cokic. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn eru að missa af lestinni í baráttunni um sæti í Lengjudeild karla í knattspyrnu að ári, en í dag gerði Ægir 2-2 jafntefli við KF á Ólafsfirði.

Ægir lenti undir eftir fimm mínútna leik og á 21. mínútu bætti KF við öðru marki. Leikmaður KF togaði hraustlega í Stefan Dabetic í aðdraganda marksins til þess að ná af honum boltanum og nokkrum sekúndum seinna var boltinn í netinu. Ægismenn brjáluðust skiljanlega út í dómarann sem lauk með því að Guðbjartur Örn Einarsson, forráðamaður liðsins fékk rauða spjaldið og þeir Baldvin Már Borgarsson aðstoðarþjálfari, Dabetic og Cristofer Rolin fengu allir gult spjald.

Staðan í leiknum var 2-0 í hálfleik og það var heldur betur hiti í kolunum í seinni hálfleik. Á 56. mínútu fékk leikmaður KF sitt annað gula spjald og þar með rautt og manni fleiri gengu Ægismenn á lagið. Rolin minnkaði muninn á 62. mínútu og Dimitrije Cokic jafnaði á 73. mínútu.

Fleiri urðu mörkin ekki en í leikslok sauð aftur uppúr og þá fengu leikmaður KF og liðstjóri liðsins að líta rauða spjaldið. Fjögur rauð á loft í háspennuleik.

Úrslitin í dag eru svekkjandi fyrir Ægismenn sem eru með 30 stig í 4. sæti, níu stigum á eftir Þrótti R, þegar fimmtán stig eru eftir í pottinum. Njarðvík vann Völsung í dag og tryggði sig þar með upp um deild, en Njarðvíkingar eru í efsta stætinu með 46 stig og sjö stiga forskot á Þrótt.

Fyrri greinÍsak bestur og markahæstur á Ragnarsmótinu
Næsta greinÆrslabelgurinn ekki kominn til landsins